Opinberir starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar staðfestu þetta í samtali við New York Times, sem greinir frá, og bættu við að búist sé við því að Rússar muni halda vopnaviðskiptum áfram við Norður-Kóreu. Þetta eru ekki fyrstu fréttirnar um vafasöm vopnakaup Rússa undanfarið en nýlega var greint frá því í fjölmiðlum að grunur sé um að Rússar séu farnir að nota dróna frá Íran.
„Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur fest kaup á milljónum eldflauga og sprengja frá Norður-Kóreu til þess að nota í stríðinu í Úkraínu,“ sagði starfsmaður leyniþjónustunnar í skriflegu svari við fyrirspurn New York Times.
Að sögn starfsmannsins benda vopnakaupin til þess að rússneski herinn sé enn þjakaður af hergagnaskorti í Úkraínu. Rússar hafa átt erfitt með ýmis konar framleiðslu undanfarna mánuði vegna hrávöruskorts, meðal annars vegna þeirra viðskiptaþvingana sem Vestræn ríki hafa beitt Rússa undanfarna mánuði. Það hefur haft áhrif á framleiðslu hergagna í Rússlandi.
Fram kemur í frétt Times að bandarískir leyniþjónustustarfsmenn telji kaupin benda til þess að viðskiptaþvinganir Vesturlanda séu farnar að hafa áhrif á Rússa og draga úr mætti þeirra til þess að viðhalda stríðsrekstri í Úkraínu.
Eins og áður segir kom nýlega fram að Rússar hafi fest kaup á írönskum drónum og notað þá í Úkraínu en starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar sagði í samtali við Reuters fyrir um mánuði að drónarnir hafi ekki reynst vel og bilað ítrekað. Rússar séu þó líklegir til að festa kaup á hundruðum Mohajer-6 og Shahed drónum.