Fótbolti

Orri Steinn lykillinn að sigri ung­linga­liðs FC Kaup­manna­hafnar á Dort­mund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson skaut í stöng, fiskaði mann út af og skoraði gegn Borussia Dortmund.
Orri Steinn Óskarsson skaut í stöng, fiskaði mann út af og skoraði gegn Borussia Dortmund. Twitter@@FCKobenhavn

Þó aðallið FC Kaupmannahafnar hafi tapað 3-0 gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöld þá gerði U-19 ára lið Danmerkurmeistaranna góða ferð til Þýskalands. Orri Steinn Óskarsson hélt áfram uppteknum hætti en hann skoraði fyrra mark liðsins í 2-0 sigri er U-19 ára lið félaganna mættust í Meistaradeild unglingaliða á þriðjudag.

Segja má að hinn 18 ára gamli Orri Steinn hafi verið lykillinn á bakvið sigur U-19 ára liðs FCK. Hann fékk besta færi gestanna í fyrri hálfleik er hann átti skot í stöng og svo snemma í síðari hálfleik fékk Silas Ostrzinski, markvörður Dortmund, beint rautt spjald fyrir að brjóta á Orra Steini fyrir utan vítateig.

Manni fleiri komust gestirnir frá Kaupmannahöfn á bragðið. Þegar tólf mínútur lifðu leiks komst Orri Steinn í skotfæri, stóð af sér pressu varnarmanns Dortmund og þrumaði boltanum niðri í markhornið fjær. Óverjandi og staðan orðin 1-0 FCK í vil. 

Skömmu síðar bætti Emil Rohd við öðru markinu og FCK vann nokkuð óvæntan 2-0 útisigur á ógnarsterku liði Dortmund. Líkt og aðallið FCK þá munu Orri Steinn og félagar í U-19 ára liði félagsins einnig mæta Manchester City og Sevilla í riðlakeppninni. 

Liðið á strax betri möguleika en aðallið félagsins að komast upp úr riðlinum sem tapaði 3-0 gegn Dortmund á þriðjudagskvöld. Hákon Arnar Haraldsson lék síðasta hálftíma leiksins á meðan Ísak Bergmann Jóhannesson sat allan tímann á varamannabekknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×