„Ég vissi að þessi dagur kæmi,“ skrifar Vilhjálmur í yfirlýsingunni, og bætir við: „en þrátt fyrir það mun það taka nokkurn tíma þar til ég mun átta mig á því hvernig líf án ömmu er.“
Hann segist munu syrgja fráfall ömmu sinnar en hann finni þrátt fyrir það fyrir miklu þakklæti. Hann hafi fengið að njóta leiðsagnar hennar, visku og hvatningar á fimmta tug ára.
„Eiginkona mín hefur fengið að njóta leiðsagnar og stuðnings hennar í tuttugu ár. Börnin mín þrjú hafa fengið að verja hátíðisdögum með henni og skapa minningar sem munu fylgja þeim út lífið,“ skrifar Vilhjálmur.
„Hún var við hlið mína á þeim augnablikum sem ég var hamingjusamastur og hún var hjá mér þegar ég upplifði mikla sorg.“
Hann segist þakklátur þeirri góðvild sem hún sýndi honum og fjölskyldu hans og þakkar henni fyrir hönd kynslóðar sinnar fyrir að hafa sýnt fordæmi á ýmsum sviðum.
„Amma mín sagði, eins og margir þekkja, að sorgin sé sá kostnaður sem fylgir ástinni. Öll sú sorg sem við munum upplifa næstu vikur verða til marks um þá ást sem við fundum fyrir í garð okkar einstöku drottningar. Ég mun heiðra minningu hennar með því að styðja við bak föður míns, Konungsins, á allan þann hátt sem ég get.“