Melanie var eins og flestir vita ein hljómsveitarmeðlima Kryddpíanna, sem voru geysivinsælar á tíunda áratugi síðustu aldar og fyrsta áratugi þessarar. Hún segir í hlaðvarpsþættinum, sem birtist í gær, að kvöldið fyrir fyrstu tónleika sveitarinnar í Istanbúl í Tyrklandi hafi nuddari brotið á henni kynferðislega. Henni hafi liði mjög illa í kjölfarið og eins og hún hefði enga stjórn á hlutunum.
„Ég gróf það sem gerðist um leið af því að ég þurfti að einbeita mér að öðrum hlutum,“ sagði Melanie í hlaðvarpsþættinum og bætti við að vegna alls þess tíma sem farið hafði í undirbúning tónleikanna hafi hún viljað einblína á þá, frekar en kynferðisbrotið.
„Ég vildi ekki skapa vandræði en ég hafði heldur engan tíma til að takast á við það sem hafði gerst,“ sagði Melanie.
Hún sagði í hlaðvarpinu að brotið hafi ekki verið alvarlegt, miðað við mörg önnur kynferðisbrot. Þá hafi hún ekki ætlað að skrifa um það í bókinni sinni en ákveðið að gera það eftir að hana dreymdi atvikið.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir mig að tala um þetta og loksins takast á við það sem gerðist og vinna úr því,“ sagði Melanie.
„Hræðilegir hlutir gerast á hverjum degi og þetta atvik varð ekki jafn alvarlegt og það hefði getað orðið,“ bætti hún við.
Í kjölfar þess að Kryddpíurnar sögðu skilið við sviðið opnaði Melanie sig um þá erfiðleika sem hún glímdi við á Kryddpíuárunum. Hún greindi til að mynda frá því í viðtali við Guardian árið 2020 að hún hafi glímt við átröskun og þunglyndi þegar frægðin var sem mest. Í fyrra kærði hún þá fjölmiðlasamsteypu Ruperts Murdoch fyrir að hafa hakkað símann hennar.