„Ég er bara svekktur og ég held að liðið sé svekkt. Þetta var rothögg. Við skoruðum tvö mörk og mér fannst við vera með þá þangað til á svona 70.mín þegar við förum bara að pakka í vörn og bíða eftir því að leikurinn klárast. Þá mæta þeir framar og byrja að setja upp langa bolta og svoleiðis,“ sagði Logi.
Víkingar breyttu í 5 manna vörn á 65. mínútu og talaði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari, um að það hafi verið hans mistök í viðtali eftir leikinn. Logi vill meira að liðið hafi bakkað of mikið.
„Já það gæti verið. Ég er enginn þjálfari en mér fannst þetta bara lélegt. Það var lítil ákefð í lokin og menn voru kannski þreyttir. Ég veit það ekki alveg en þetta var bara lélegt,“ sagði Logi.
Líkt og áður segir þá eru Víkingar eftir leiki dagsins 8 stigum á eftir Breiðablik og möguleikar þeirra á titli minnka mikið.
„Möguleikarnir eru ekki miklir sko. Við höldum áfram og reynum að vinna rest og tryggja annað sætið sem gefur Evrópusæti sem getur verið sterkt líka,“ sagði Logi um möguleika liðsins.
Logi hefur átt frábært tímabil í áhugaverðri stöðu sem einhverskonar blanda af bakverði og miðjumanni. Hann nýtur stöðunnar vel og þakkar Arnari fyrir traustið. Logi var valinn í u21 landslið Íslands fyrir mikilvæga leiki. Þá var einnig að ganga saga um að hann hefði neitað að fara á reynslu hjá Gautaborg í Svíþjóð en Logi tekur fyrir það.
„Mér finnst þetta mjög skemmtileg staða og ástæðan fyrir því að ég er búinn að skora svona mikið af mörkum er því ég fæ frjálsræði frá Arnari. Hann vill að ég fari hærra því ég er gamall kantmaður í yngri flokkum og mér finnst gaman að sækja.“
„Þetta er spennandi verkefni með u21. Þetta verða 50/50 leikir held ég og við ætlum okkur áfram bara.“
„Þetta var nú bara eitthvað djók hjá félaga mínum. Ég er ekki á leiðinni á neina reynslu eða allavega ekki svo ég viti,“ sagði Logi að lokum.