Atkvæðagreiðsla hófst í Lúhansk, Donetsk, Kherson og Saporisjía, fjórum héruðum sem Rússar hersetja að hluta, í dag og stendur hún fram á þriðjudag. Boðað var til hennar með aðeins nokkurra daga fyrirvara og í skugga stórsóknar úkraínska hersins í norðaustanverðu landinu. Úkraínsk stjórnvöld og vestrænir bandamenn þeirra hafa fordæmt atkvæðagreiðsluna sem fals þar sem niðurstaðan er fyrirfram ákveðin, Rússum í vil.
Júrí Sobolevskíj, varaformaður héraðsráðs Kherson-héraðs sem Rússar boluðu burt með hernámi sínu, segir að fólki á svæðunum hafi verið bannað að yfirgefa þau á meðan á atkvæðagreiðslunni stendur, vopnaðir menn gangi í hús til að neyða fólk til að greiða atkvæði og starfsfólki hafi verið hótað brottrekstri ef það tekur ekki þátt.
„Í dag er það besta fyrir íbúa Kherson að opna ekki dyrnar,“ segir Sobolevskíj.
Talið er að stjórnvöld í Kreml ætli sér að nota niðurstöður atkvæðagreiðslunnar til þess að innlima héruðin líkt og þau gerðu með Krímskaga árið 2014. Eftir innlimunina gætu þau lýst gagnsókn Úkraínumanna í þeim sem árás á Rússland sjálft. Pútín forseti ýjaði jafnvel að því að Rússar gætu beitt kjarnavopnum til að verja landsvæðin í vikunni.
Serhíj Gaidai, ríkisstjóri Lúhansk, segir að fólk þar hafi verið neytt út úr húsum sínum til að kjósa. Sums staðar sé fólk látið fylla út blöð í eldhúsi sínu eða garði án leyndar. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir rússneskum fjölmiðlum að gengið verði með kjörkassa í hús til að láta fólk kjósa. Kjörstaðir verði aðeins opnir einn dag, á þriðjudag.
Engir óháðir eftirlitsmenn fylgjast með atkvæðagreiðslunni og þá er stór hluti íbúa héraðanna sem bjó í þeim fyrir stríðið flúinn, að sögn Reuters-fréttastofunnar.