Innherji

Fjár­festa þurfi fyrir 584 milljarða evra í raf­orku­kerfi Evrópu

Þórður Gunnarsson skrifar
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að fyrirtæki í Evrópu þurfi að bregðast við þeim aðstæðum sem eru uppi í orkumálum Evrópu. Nefndi hún dæmi um keramikverksmiðju á Ítalíu sem starfar nú fyrst og fremst á nóttinni þegar raforka er ódýrari. 
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að fyrirtæki í Evrópu þurfi að bregðast við þeim aðstæðum sem eru uppi í orkumálum Evrópu. Nefndi hún dæmi um keramikverksmiðju á Ítalíu sem starfar nú fyrst og fremst á nóttinni þegar raforka er ódýrari.  AP/Jean-Francois Badias

Svo meginland Evrópu geti staðið á eigin fótum í orkumálum og þurfi ekki að kaupa jarðgas af Rússum þarf að fjárfesta um 584 milljörðum evra í í flutnings- og dreifikerfi raforku. Þetta eru frumniðurstöður rannsóknar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur látið vinna.

Lokaniðurstöður um fjárfestingaþörf Evrópu í raforkumálum Evrópu verður kynnt í komandi viku, að því er Reuters greinir frá.

Samhliða niðurstöðum athugunar á fjárfestingaþörf, verða einnig kynnt úrræði Evrópusambandsins er snúa að því að ná tökum á himinháu gasverði álfunnar. Einnig má ætla að björgunarpakkar til handa raforkusölufyrirtækjum, sem ráða ekki við há heildsöluverð um þessar mundir, verði lagðir fram.

Af áðurnefndum 584 milljörðum evra verða um 400 milljarðar eyrnamerktir fjárfestingum í dreifikerfi raforku. Þar af er tæplega helmingur sem er tileinkaður svokölluðum snjalldreifikerfum, sem er ætlað að bregðast hraðar við skammtímasveiflum í framboði og eftirspurn raforku á mismunandi stöðum í álfunni. Með snjalldreifikerfum er sögð nást fram meiri hagkvæmni og minni sóun.

Sólarorkupanelar á öll ný heimili í Evrópu

Í frumniðurstöðum úttektar framkvæmdastjórnarinnar segir að eigi loftslagsmarkmið að nást og láta eigi af kaupum á jarðefnaeldsneyti af Rússum fyrir árið 2030, þurfi um 30 milljónir rafbíla á evrópskar götur á næstu árum auk þess sem öll ný heimili þurfi að vera útbúin til að nýta sólarorku.

Fyrirtæki víða um Evrópu hafa þegar brugðist við hækkandi raforkuverði með því að færa til vaktir. Ursula Von De Leyen, framkvæmdastjóri Evrópusambandins, gerði keramikverksmiðju nokkra á Ítalíu að umtalsefni í ávarpi sínu í Strasbourg þann 14.september. 

Þar benti hún á að verksmiðjan hefði ákveðið að láta starfsmenn mæta á vaktir um miðja nótt og ljúka framleiðslu dagsins fyrr en ella, en raforkuverð er jafnan töluvert lægra á nóttinni þegar eftirspurn er minni.


Tengdar fréttir

Rússar ekki í vandræðum með olíuútflutning þrátt fyrir þvinganir

Þrátt fyrir viðskiptaþvinganir Vesturlanda gagnvart Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu hefur rússneskum olíufyrirtækjum tekist að viðhalda nánast sömu framleiðslu og fyrir stríð. Útflutningur hráolíu mældur í magni er talinn munu dragast saman um sjö til átta prósent á þessu ári, að því er kemur fram í nýlegri greiningu Institute of Energy við Oxford-háskóla í Bretlandi (OIES).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×