Tveir markahæstu leikmenn Bestu deildar kvenna, þær Jasmín Erla Ingadóttir og Gyða Kristín Gunnarsdóttir, voru gestir Helenu Ólafsdóttur í síðasta þætti Bestu upphitunarinnar í sumar. Þar ræddu þær meðal annars um baráttu þeirra um markakóngstitilinn, gengi Stjörnunnar í sumar og Kristján. Þær bera honum vel söguna en neituðu því ekki að hann væri örlítið sérstakur.
„Hann á sín augnablik og bullar mikið,“ sagði Jasmín hlæjandi. „En hann er mjög skilningsríkur, búinn að bæta sig í samskiptum og ná gríðarlega langt í því þessi fjögur ár.“
„Hann fór á eitthvað námskeið til að læra að tala við stelpur,“ bætti Gyða við.
Kristján er á sínu fjórða tímabili með Stjörnuna sem er í kjörstöðu til að ná 2. sæti deildarinnar og komast þar með í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta tímabili.
Stjarnan tekur á móti Keflavík í lokaumferð Bestu deildarinnar á morgun og svo lengi sem liðið nær sömu úrslitum eða betri en Breiðablik gegn Selfossi endar það í 2. sætinu.
Bestu upphitunina má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.