Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Birtingi, útgáfufélagi Vikunnar. Þar segir að Guðrún Óla hafi starfað sem blaðamaður á Vikunni frá árinu 2018 en áður verið hún blaðamaður á sunnudagsblaði Morgunblaðsins og Morgunblaðinu auk þess sem hún las fréttir á K100.
„Hún lauk meistaranámi í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands árið 2014 og er með B.Ed.-gráðu í íslenskukennslu. Guðrún Óla hefur einnig getið sér gott orð sem söngkona,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Guðrúnu Ólu að hún sé þakklát fyrir tækifærið og traustið sem sér sé sýnt hjá Birtíngi og hlakki til að halda áfram þeirri góðu vegferð sem Vikan, elsta tímarit landsins, hafi verið á.
„Það er gott, en ekki síður mikilvægt að tímaritaútgáfa lognist ekki út af þrátt fyrir allar þær breytingar sem hafa átt sér stað í hröðu nútímasamfélagi. Við hjá Birtíngi höfum verið í stafrænni uppbyggingu sem við munum halda áfram og það eru spennandi tímar framundan, en það er samt fátt sem jafnast á við að fletta tímariti yfir góðum kaffibolla,“ segir Guðrún Óla.