„Litið til náinnar framtíðar þá er þetta ekki tíminn fyrir arðgreiðslur eða endurkaup á eigin bréfum hjá bönkunum,“ sagði Ásgeir Jónsson þegar Innherji settist niður með honum eftir vaxtaákvörðunarfund bankans í gærmorgun.
Hann undirstrikar hins vegar að staða Íslands sé á flesta mælikvarða mun betri en annarra Evrópuríkja, þar sem víða séu blikur á lofti, þegar kemur að því að mæta þeirri fjármálalegu aðlögun sem er nú að eiga sér stað með hækkandi vöxtum. Á Íslandi hafa vextir Seðlabankans hækkað úr 0,75 prósent, þegar þeir voru lægstir vorið 2021, upp í 5,75 prósent eftir vaxtahækkun bankans í gær. Ásgeir vonar að það sé toppurinn á vaxtahækkunarferlinu en útlit er fyrir að margir aðrir seðlabankar eigi lengra verk fyrir höndum í hækkun vaxta til að ná böndum á verðbólgunni.
„Við sjáum að það eru áhyggjur af því hvort bankakerfið í sumum löndum Evrópusambandsins geti staðið nægjanlega sterkt af sér þau efnahagsáföll sem kunna að vera í vændum á tímum þegar vextir eru að hækka hratt vegna aukinnar verðbólgu og efnahagsumsvifin eru samhliða að dragast hratt saman,“ útskýrir Ásgeir, og vísar til yfirlýsingar evrópska kerfisáhætturáðsins í síðustu viku.
Þar sá ráðið ástæðu til þess að senda frá viðvörun um aukna áhættu í fjármálakerfi Evrópu, meðal annars vegna þrálátrar verðbólgu og þrengra aðgengi að fjármálamörkuðum, sem gæti ógnað fjármálastöðugleika. Var þetta fyrsta slíka viðvörunin sem ráðið hefur sent frá sér frá árinu 2010 þegar það var sett á fót vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Fjármálafyrirtæki voru hvött til þess að treysta viðnámsþrótt sinn með því að viðhalda nægu eigin fé.
Litið til náinnar framtíðar þá er þetta ekki tíminn fyrir arðgreiðslur eða endurkaup á eigin bréfum.
Ásgeir nefnir að áhyggjur fjárfesta af fjárhagsstöðu Credit Suisse, sem hefur birst í því að hlutabréfaverð bankans hefur lækkað um meira en helming frá áramótum og skuldatryggingaálagið er í hæstu hæðum, endurspegli vel þá stöðu sem sé að teiknast upp í Evrópu. „Þeir eru núna veikasta dýrið í hjörðinni, rétt eins og Ísland og Lehman Brothers var á sínum tíma í alþjóðlegu fjármálakreppunni árið 2008. Ég held samt að Credit Suisse muni ekki falla, bankanum verður bjargað ef til þess þyrfti að koma,“ segir Ásgeir.
Hann bendir einnig á að til viðbótar við brothætta eiginfjárstöðu sumra evrópskra banka, sem hafi meðal annars ekki innleitt eiginfjárauka með sama hætti og þeir íslensku, þá sé ljóst að það muni reyna mjög að ríkisfjármál margra landa.
Skuldsetning ríkissjóða beggja vegna Atlantshafsins, sem hlutfall af landsframleiðslu, hefur aukist mikið á undanförnum árum. Með hækkandi langtímavöxtum á ríkisskuldabréfum verður því erfiðara fyrir þessi ríki að standa undir fjármagnkostnaði skuldanna jafnvel þótt vaxtastigið sé, svo dæmi sé tekið, það sama og fyrir um áratug.
„Það er ekkert ólíklegt að þessi staða muni þróast út í ríkisfjármálakreppa,“ útskýrir seðlabankastjóri, „sérstaklega hjá mörgum nýmarkaðslöndum. Hækkandi vextir á heimsvísu, líkt og við erum að sjá núna, munu valda miklum erfiðleikum. Ísland er sem betur fer ekki skuldugt gagnvart útlöndum – þvert á móti eigum við umtalsvert meiri erlendar eignir umfram skuldir – annars væri greiðslujöfnuðurinn orðinn verulega neikvæður vegna vaxtagreiðslna í erlendri mynt sem færu úr landi.“
Bankarnir setji áhersluna á öryggið
Í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabankans sem birtist í liðinni viku, var meðal annars fjallað um mikilvægi þess að viðskiptabankarnir þyrftu að auka markaðsfjármögnun, bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, og samhliða huga að bindingu innlána til að treysta lausafjárstöðu sína til lengri tíma litið. „Mikil útlánaaukning, arðgreiðslur og endurkaup á eigin hlutabréfum samfara afar krefjandi aðstæðum á fjármagnsmörkuðum bæði hérlendis og erlendis hafa valdið nokkrum lækkunum á lausafjárstöðu kerfislega mikilvægra banka á síðustu mánuðum,“ sagði í ritinu, eins og Innherji hefur áður fjallað um.
Veldur þessi staða Seðlabankanum áhyggjum?
„Nei, í sjálfu sér ekki. Allar bankarnir hafa að undanförnu verið að greiða út og/eða ráðast í endurkaup á eigin hlutabréfum. Í kjölfarið eru þeir komnir nokkuð nálægt þeim lágmarkskröfum sem við höfum sett þeim. Í þessu árferði myndum við þess vegna hvetja bankana til að huga vel að bæði lausafé- og eiginfjárstöðu sinni,“ segir Ásgeir, og bætir við:
„Þá eru útgáfur bankanna [Arion og Íslandsbanki] á sértryggðum skuldabréfum í evrum sömuleiðis veðhæf í endurhverfum viðskiptum Evrópska seðlabankann sem er afar jákvætt.“
Frá árslokum 2020 hefur eiginfjárhlutfall stóru bankanna lækkað um 1,6 prósentur, meðal annars vegna arðgreiðslna og kaupa á eigin bréfum fyrir samtals 100 milljarða. Þar munar mest um Arion banka en útgreiðslur hans til hluthafa á tímabilinu nema rúmlega 58 milljörðum króna. Eiginfjárstaða bankanna er engu að síður afar sterk, sérstaklega ef hún er skoðuð miðað við heildareignir – svonefnt vogunarhlutfall – en þar eru þeir íslensku með hæstu gildin á evrópska efnahagssvæðinu.
„Bankakerfið er þess vegna mjög vel fjármagnað,“ undirstrikar Ásgeir, og bendir á að þeir séu með mikið umfram lausafé þrátt fyrir að búið sé að setja þeim afar stífar kröfur hvað það varðar. Laust fé sem bankarnir höfðu til ráðstöfunar umfram lágmarksviðmið var þannig um 213 milljarðar króna í lok ágúst.
Í þessu árferði myndum við þess vegna hvetja bankana til að huga vel að bæði lausafé- og eiginfjárstöðu sinni.
„Það er því ekki eins og bankarnir séu í einhverjum vandræðum. En í ljósi reynslunnar, þá leggum við auðvitað áherslu á varfærni,“ segir Ásgeir.
Þrátt fyrir umtalsverðar arðgreiðslur á síðustu misserum og árum þá eru bankarnir enn með nokkuð umfram eigið fé miðað við þær eiginfjárkröfur sem þeim eru settar. Eftir uppgjör annars fjórðungs á árinu mat þannig Íslandsbanki að umfram eigið fé sitt væri um 30 til 35 milljarðar – bankinn boðaði þá endurkaup eða sérstaka arðgreiðslu upp á 15 milljarða á „næstu mánuðum“ með hliðsjón af markaðsaðstæðum – á meðan umfram eigið fé Arion banka var á þeim tíma metið tæplega 24 milljarðar. Í byrjun síðasta mánaðar fékk Arion síðan loks samþykkja heimild frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans til að hefja endurkaup á eigin bréfum fyrir allt að 10 milljarða króna.
Í þessum aðstæðum sem núna hafa verið að teiknast upp á erlendum mörkuðum er þá ólíklegt að bankarnir séu að fara fá heimild frá Seðlabankanum til að halda áfram með slík endurkaup?
„Ég held að miðað við stöðuna í dag þá erum við varla að fara að huga að því. Það er samt of snemmt að fullyrða neitt um það, en ef við erum að fara sjá mikla erfiðleika úti í heimi þá kunna þeir að smitast hingað til Íslands og þá förum við heldur að einblína á að bankarnir verndi eigið fé sitt sem helst auðvitað í hendur við lausafjárstöðu þeirra hverju sinni. Ég held að bankarnir geri sér vel grein fyrir því sjálfir að í ljósi þessarar óvissu þá verði þeir að setja áhersluna á öryggið framar öllu,“ segir seðlabankastjóri.
Bankarnir keppast um innlánin
Ein birtingarmynd þess að lausafjárstaða bankanna hefur farið versnandi á síðustu mánuðum er að samkeppni um innlán viðskiptavina hefur aukist og þá um leið vextirnir sem eru boðnir á þeim reikningum.
Ásgeir segir þetta vera rétt og bendir á að íslenska bankakerfið fjármagni sig að stærstum hluta með innlánum. „Um leið og það fer að hægjast á umsvifunum hjá bönkunum, eins og er að gerast núna með minnkandi útlánum, þá dragast innlánin saman sjálfkrafa. Ég held að margir bankar hafi mjög góð verkefni að lána til og þess vegna vilji þeir eftir fremsta megni halda áfram að lána út – og þá myndast þessi samkeppni um innlánin. Þetta er að einhverju leyti jákvætt, enda viljum við meðal annars hvetja fólk til að spara.“
Seðlabankastjóri rifjar upp að á meðan faraldrinum stóð þá hafi safnast upp miklir fjármunir á innlánsreikningum hjá bönkunum. „Núna hefur almenningur verið að taka þá peninga út af reikningum sínum og innlánastabbinn hefur því minnkað að sama skapi. Það mun mögulega setja þrýsting á vaxtamuninn hjá bönkunum þegar fram í sækir,“ útskýrir Ásgeir.