Erlent

Inn­limun, bak­slag og yfir­taka

Bjarki Sigurðsson og Atli Ísleifsson skrifa
Vladímír Pútín Rússlandsforseti skrifaði einnig undir tilskipun um að Rússar taki yfir kjarorkuverið í Saporítsjía.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti skrifaði einnig undir tilskipun um að Rússar taki yfir kjarorkuverið í Saporítsjía. EPA/Gavriil

Vladímír Pútín Rússlandsforseti skrifaði í gær undir síðustu skjölin sem fela í sér að Rússar innlimi fjögur héruð í Úkraínu, á sama tíma og rússneskar hersveitir hafa orðið fyrir bakslagi og áfram þurft að hörfa bæði í norðausturhluta og suðurhluta Úkraínu.

Í skjölunum sem Pútín skrifaði undir kemur fram að héröðin Lúhansk, Donetsk, Saporítsjía og Kherson séu öll samþykkt inn í rússneska ríkjasambandið, líkt og þar segir.

Fréttir hafa borist af því að úkraínski herinn hafi haldið sókn sinni áfram í Lúhansk og Kherson í gær og í nótt og endurheimt enn fleiri bæi sem Rússar náðu á sitt vald í kjölfar innrásarinnar sem hófst í febrúar. Serhiy Haidai, ríkisstjóri Lúhansk, sagði við BBC í gær að sex þorp í héraðinu væru aftur komin á vald Úkraínumanna.

Pútín skrifaði einnig undir tilskipun í gær sem felur í sér að Rússar yfirtaki formlega kjarnorkuverið í Saporítsjía, því stærsta í Evrópu. Íbúar borgarinnar hafa þurft að glíma við miklar sprengjuárásir síðustu dagana. Að minnsta kosti sjö eldflaugum var varpað á borgina í gær en ekki er vitað hvort eða hversu margir slösuðust í árásunum.

Ráðstöfun Rússlandsstjórnar kemur í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslna sem Rússar boðuðu til, en bæði Úkraínustjórn, stjórnvöld á Vesturlöndum og víðar segja þær hafa verið skrípaleik, marklausar og brotið í bága við alþjóðalög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×