Musk snerist hugur á mánudag og kvaðst þá vilja ganga að upphaflegu tilboði. Dómsmálið, sem Twitter höfðaði á hendur Musk til að fá kaupverðið greitt, er tekið fyrir í Delaware-ríki í Bandaríkjunum. Í dag sló dómari málinu á frest en takist ekki að semja um kaupin fyrir 28. október verður málið tekið fyrir á ný í nóvember.
Upphaflega hafði Musk krafist riftunar á grundvelli brostinna forsendna þar sem Twitter hafi veitt ófullnægjandi upplýsingar um gervimenni á miðlinum.
Í dag báru stjórnendur Twitter því við að óvæntur viðsnúningur Musk innihéldi óásættanleg samningsákvæði og væri aðeins til að tefja kaupin enn frekar.