Erlent

Samkynhneigður maður afhöfðaður á Vesturbakkanum

Kjartan Kjartansson skrifar
Samkynhneigð er litin hornauga í íhaldssömum samfélögum í Palestínu og Ísrael.
Samkynhneigð er litin hornauga í íhaldssömum samfélögum í Palestínu og Ísrael. Vísir/Getty

Einn er í haldi palestínsku lögreglunnar vegna morðs á 25 ára gömlum samkynhneigðum karlmanni. Lík mannsins fannst afhöfðað í Hebron á Vesturbakkanum. Samtök hinsegin fólks í Ísrael segja að honum hafi borist hótanir vegna kynhneigðar sinnar.

Ahmad Abu Marhia sóttist eftir hæli í Ísrael. Samtök hinsegin fólks þar segja að hann hafi beðið niðurstöðu í máli sínu í tvö ár. Honum hafi verið hótað lífláti í Palestínu. 

Breska ríkisútvarpið BBC segir óljóst hvers vegna Abu Marhia var staddur í Hebron en ísraelskir fjölmiðlar hafa eftir vinum hans að honum hafi verið rænt og hann fluttur á Vesturbakkann. Fjölskylda hans segir hann þó hafa komið reglulega til Hebron til að heimsækja hana.

Myndband af vettvangi morðsins er í dreifingu á samfélagsmiðlum og miklar vangaveltur eru uppi um hvað morðingjanum gekk til. Lögreglan segir að það ekki liggi ekki fyrir.

Íhaldsmenn í bæði Palestínu og Ísrael hafna samkynhneigðum. Dagblaðið Times of Israel segir að um níutíu hinsegin Palestínumenn sækist eftir hæli í Ísrael vegna mismununar í Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×