Forsaga málsins er meint líkamsárás og nauðgun í Garðabæ í mars 2020. Þar er ákærða gefið að sök að hafa veist að brotaþola, kveikt á kúlublysi og skotið úr því í áttina að honum, haldið honum niðri og sett fingur í endaþarm hans. Segir í ákæru að brotaþoli hafi hlotið opið sár á höfði og áverka á höndum og fótum.
Ákærða var tilkynnt af lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu að rannsókn málsins yrði hætt þar sem ekki væri grundvöllur til að halda henni áfram. Kærði brotaþoli þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem vísaði kærunni frá þar sem kærusfrestur var liðinn en lagði fyrir lögreglu að taka upp rannsókn málsins að nýju.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness var fallist á kröfu ákærða um frávísun málsins þar sem ákvörðun lögreglustjórans um að hætta rannsókn hefði ekki verið felld úr gildi. Landsréttur var þessu ósammála og felldi í vikunni úrskurð Héraðsdóms úr gildi.
Í úrskurði Landsréttar er vísað til þess að brotaþoli hafi við skoðun á slysadeild verið með áverka á höfði og við endaþarm. Ríkissaksóknari hafi metið það svo að ný sakargögn væru fram komin og að ekki séu efni til þess að hnekkja því mati ríkissaksóknara. Rök héraðsdómara um að ríkissaksóknari gæti ekki vísað frá kæru brotaþola vegna liðins kærufrests og lagt fyrir lögreglu að halda rannsókn áfram voru því ekki talin halda vatni.
Héraðsdómur taldi einnig að málsmeðferðartími ríkissaksóknara hafi brotið gegn meginreglum sakamálaréttarfars um hraða málsmeðf en fimm mánuðir liðu frá því kæra barst honum þar til ákvörðun um endurupptöku var tekin. Þessu var hafnað í úrskurði Landsréttar.
Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.