Ullarvikan hófst formlega um síðustu viku með Degi sauðkindarinnar á Hellu og svo fjárlitasýningu í Árbæjarhjáleigu í Rangárþingi ytra. Síðan hefur verið fjölbreytt dagskrá alla daga vikunnar með allskonar atriðum, sem tengjast ull af íslensku sauðkindinni.
Hulda Brynjólfsdóttir í Uppspuna í Ásahreppi og eina af forsvarskonum Ullarvikunnar er mjög ánægð með hvernig til hefur tekist.
En hvers konar markaður verður þetta á Þingborg í dag?
“Markaðurinn snýst aðallega um íslenskt handverk tengt ull og prjónaskap og því sem hægt er að nýta í kringum það. Ef við leyfðum líka þeim að koma, sem eru með sérstaklega vandað handverk líka. Það eru allir velkomnir, bara um að gera að drífa sig í sveitina,” segir Hulda.

Hulda segir mikla vakningu í kringum íslensku ullina. En hverju þakkar hún það?
“Íslensku sauðkindinni, ég myndi segja það. Við erum bara að átta okkur á því hvað hún er mikilvæg og getur gert mikið fyrir okkur myndi ég segja.”
Og það er í rauninni að fast meira fyrir ullina en kjötið eða hvað?
“Já,hjá okkur er það þannig, við erum að fá meira fyrir ullina en kjötið, þannig að hún er orðinn mikilvægari í okkar huga,” segir Hulda, sauðfjárbóndi og eigandi Uppspuna í Ásahreppi. Markaðurinn í Þingborg hófst klukkan 10:00 í morgun og stendur til klukkan 17:00 í dag.