Fótbolti

Neymar segist saklaus: „Skrifa bara undir allt sem pabbi segir mér að skrifa undir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Neymar mætti fyrir rétt í dag, en hann er ákærður fyrir fjársvik og spillingu vegna félagsskipta hans frá Santos til Barcelona árið 2013.
Neymar mætti fyrir rétt í dag, en hann er ákærður fyrir fjársvik og spillingu vegna félagsskipta hans frá Santos til Barcelona árið 2013. David Zorrakino/Europa Press via Getty Images

Réttarhöld gegn brasilíska fótboltamanninum Neymar hófust í dag, en hann hefur verið ákærður fyrir fjársvik og spillingu vegna félagsskipta hans frá Santos til Barcelona árið 2013.

Ásamt Neymar eru átta aðrir ákærðir, en sakborningarnir neita allir sök. Ástæða ákærunar er sú að brasilíska fjárfestingafélagið DIS átti 40 prósent af sölurétti leikmannsins, en félagið kærði söluna á þeim forsendum að hún hafi verið fyrir mun lægri upphæð en eðlilegt þætti.

Fjárfestingafélagið fer fram á að Neymar fái fimm ára fangelsisdóm, ásamt því að krefjast tíu milljóna evra í skaðabætur frá leikmanninum. Félagið fer einnig fram á að Josep Maria Bartomeu og Sandro Rosell, fyrrum forsetar Barcelona, fáið fimm ára fangelsisdóma, en félagið sækist samtals eftir 149 milljónum evra í skaðabætur.

Neymar, sem og aðrir sakborningar í þessu máli, hefur þó neitað sök og segist ekki hafa komið nálægt samningaviðræðunum á sínum tíma. Hann hafi einfaldlega skrifað undir það sem pabbi hans sagði honum að skrifa undir.

„Pabbi sá alltaf um þetta og mun alltaf gera,“ sagði þessi þrítugi knattspyrnumaður.

„Ég tók ekki þátt í samningaviðræðunum. Ég skrifa bara undir allt sem pabbi segir mér að skrifa undir. Að spila fyrir Barcelona var alltaf draumurinn, æskudraumurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×