Southampton sótti stig gegn toppliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuart Armstrong skoraði jöfnunarmark Southampton.
Stuart Armstrong skoraði jöfnunarmark Southampton. Ryan Pierse/Getty Images

Topplið Arsenal þurfti að sætta sig við 1-1 jafntefli er liðið heimsótti Southampton í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Gestirnir í Arsenal voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og dag og þeir uppskáru mark strax á 11. mínútu leiksins þegar Granit Xhaka þrumaði fyrirgjöf Ben White í þaknetið.

Gestirnir náðu að skapa sér nokkur hálffæri það sem eftir lifði hálfleiksins, en inn vildi boltinn ekki og staðan var því 0-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Leikurinn var mun jafnari í síðari hálfleik og ljóst var að eins marks forysta Arsenal var brothætt. Það voru svo einmitt heimamenn sem skoruðu næsta mark leiksins þegar Stuart Armstrong dékk boltann einn og yfirgefinn inni í vítateig Arsenal og jafnaði metin með hnitmiðuðu skoti framhjá Aaron Ramsdale í marki gestanna.

Martin Ødegaard virtist svo vera búinn að koma gestunum yfir á nýjan leik stuttu fyrir leikslok, en aðstoðardómarinn var vel vakandi á hliðarlínunni og tók eftir því að Kieran Tierney hafði misst boltann aftur fyrir endamörk í aðdraganda marksins sem stóð því ekki.

Hvorugu liðinu tókst að stela sigrinum á lokamínútum leiksins og niðurstaðan því 1-1 jafntefli. Arsenal trónir enn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 11 leiki, tveimur stigum meira en Englandsmeistarar Manchester City sem sitja í öðru sæti. Southampton situr hins vegar í 15. sæti með 12 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira