„Eftir lokun markaða á fimmtudag hélt fjármálaráðherra blaðamannafund þar sem hann kynnti að Íbúðalánasjóður færi að óbreyttu í þrot eftir 12 ár og þá myndi reyna á ríkisábyrgð. Á sama fundi og rætt var um þetta yfirvofandi gjaldþrot - með ríkisábyrgð - kynnti fjármálaráðherra hugmynd sem gæti „sparað” ríkissjóði gríðarlegar fjárhæðir. Þar mátti þó reyndar líka heyra að væntanlegt fjártjón ríkissjóðs í dag væru um 47 milljarðar. Og gæti orðið meira.
En hvar lá þá eiginlega sparnaðurinn? Hann átti að ná fram með því að ná samkomulagi við lánardrottna Íbúðalánasjóðs um uppgjör skulda. Lánardrottnar eru að stærstum hluta lífeyrissjóðirnir. Með öðrum orðum: almenningur í landinu,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar um fyrirhuguð slit á ÍL-sjóði, sem áður hét Íbúðalánasjóður. Hún skrifar um málið á Facebook.
Ævintýranlegt fjártjón
Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti skýrslu í vikunni þar sem fram kom að til að reka ÍL-sjóð út líftíma hans þyrfti ríkissjóður að leggja honum til 450 milljarða eftir tólf ár. Með því að slíta honum yrði staðan þó aðeins neikvæð um 47 milljarða.
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka sagði í vikunni að skiljanlegt væri frá sjónarhóli ríkisins að leysa upp sjóðinn en lánadrottnar, sem eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og einstaklingar, muni þurfa taka á sig högg.
„En það er auðvitað ekki þannig að kostnaðurinn bara hverfi. Og í sjálfu sér eru það meistaralegir taktar í skapandi skrifum að gefa ævintýralegu fjártjóni nafnið „sparnað”.
Það er auðvitað rétt að það verður að grípa inn stöðu þar sem tap getur verið 18 milljarðar á ári og slík staða má ekki viðgangast lengi án aðgerða stjórnvalda. Fjármálaráðherra sagði þess vegna bæði mikilvægt og ábyrgt gagnvart komandi kynslóðum og kröfuhöfum að gengið verði til þessa uppgjörs fyrr en seinna. Gríðarlegt fjártjón myndi falla á skattgreiðendur og framtíðarkynslóðir ef ekkert yrði að gert,“ heldur Þorbjörg Sigríður áfram.
Þriggja ára skoðun kostað tugi milljarða
Hún segir viðbragðstíma fjármálaráðherra vekja athygli enda hafi hann setið í embætti síðan árið 2013 - en það ár hafi skýsla um rekstrarerfiðleika og framtíðarhorfur sjóðsins legið fyrir. Ráðherra hafi því haft tæpan áratug til að draga úr tjóni almennings.
„Í Morgunblaðinu í gær svaraði ráðherrann þeirri spurningu hvort ekki hefði mátt bregðast fyrr við. Þar segist hann hafa verið að skoða þessi mál gaumgæfilega frá 2019. Bara þessi þriggja ára skoðun ráðherrans hefur þá kostað tugi milljarða króna.
Það er rándýrt aðgerðaleysi og það er almenningur sem tekur reikninginn,“ segir Þorbjörg Sigríður að lokum.