Aron og Stefán voru báðir í byrjunarliðum sinna liða í dag, en það voru gestirnir í Silkeborg sem tóku forystuna strax á þriðju mínútu leiksins.
Heimamenn í Horsens jöfnuðu hins vegar metin á 15. mínútu og staðan var því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Gestirnir þurftu að spila stærstan hluta síðari hálfleiksins manni færri eftir að Tobias Salquist fékk að líta beint rautt spjald á 48. mínútu og mínútu síðar kom Aron heimamönnum í 2-1 forystu.
Stefán og félagar gáfust þó ekki upp og manni færri tókst þeim að jafna metin á 73. mínútu, en Anders Jacobsen tryggði Horsens dramatískan 3-2 sigur með marki af vítapunktinum á annarri mínútu uppbótartíma.
Horsens situr nú í áttunda sæti deildarinnar með 18 stig eftir 14 leiki, þremur stigum minna en Silkeborg sem situr í fjórða sæti.