Þetta segja blaðamenn Washington Post að hafi komið fram í nýlegum upplýsingapakka sem leyniþjónustur Bandaríkjanna afhentu Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.
Ummæli Prigozhin og það að hann hafi í raun getað látið þau falla við Pútín eru talin til marks um aukin umsvif hans og áhrif í Rússlandi. Þau eru einnig til margs um erfiða stöðu stjórnenda hersins eftir slæmt gengi í Úkraínu frá því innrásin hófst í febrúar.
Auðjöfurinn viðurkenndi nýverið að hann ætti málaliðahópinn umdeilda, Wagner Group, sem hefur verið umsvifamikill í stríðsrekstrinum í Úkraínu frá upprunalegri innrás Rússa árið 2014.
Sjá einnig: Kokkur Pútíns játar að eiga Wagner
Wagner er nokkuð umsvifamikill málaliðahópur og með viðveru í Mið-Austurlöndum, Afríku, Úkraínu og víðar. Málaliðar hópsins hafa margsinnis verið sakaðir um ýmis ódæði en Wagner Group hefur verið kallaður „skuggaher Rússlands“.
Sjá einnig: „Kokkur Pútíns“ býður föngum frelsi fyrir herþjónustu í Úkraínu
Prigozhin er talinn hafa séð tækifæri á því að auka völd sín í Rússlandi og þá meðal annars á kostnað Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands. Auðjöfurinn hefur reynt að koma þeim skilaboðum á framfæri að hann geti skilað meiri árangri en núverandi stjórnendur hersins og er það sagt hafa skilað árangri en staða Prigozhins í innri hring Pútíns hafði versnað á undanförnum árum.
Sjá einnig: Illdeilur í innsta hrings Pútíns sem tekur ákvarðanir í einrúmi
Ramzan Kadyrov, sem fer með völd í Téténíu, hefur tekið undir opinbera gagnrýni Prigozhins á herinn á undanförnum mánuðum. Ummæli þeirra tveggja eru sögðu eiga þátt í breyttri stefnu Rússa í Úkraínu og fjölgun árása á almenna borgara og innviði Úkraínu á undanförnum vikum.
Þeir tveir og aðrir harðlínumenn hafa ítrekað kallað eftir því að Rússar eigi að svara slæmu gengi á vígvöllum Úkraínu með umfangsmiklum árásum gegn borgurum landsins. Kadyrov sendi í morgun frá sér löng raddskilaboð þar sem hann sagði meðal annars að Rússar ættu að jafna úkraínskar borgir við jörðu.
Prigozhin sjálfur neitar því í samskiptum við blaðamenn Washington Post að hafa rætt stríðið við Pútín. Þá vildi hann ekki tjá sig um myndband þar sem málaliðar Wagner eru sagðir þykjast vera venjulegir hermenn og kvarta yfir ömurlegum aðbúnaði í hernum.
Wagner gengur ekki vel nærri Bakhmut
Málaliðar Wagner Group hafa í margar vikur reynt að ná bænum Bakhmut í austurhluta Úkraínu. Þar hafa Rússar náð hægum og mjög kostnaðarsömum árangri og hafa sótt að útjaðri borgarinnar. Á undanförnum dögum hefur úkraínskum hermönnum þó tekist að gera vel heppnaðar gagnárásir gegn Rússum og rekið rússneska hermenn og málaliða aftur frá Bakhmut.
Hugveitan Institute for the study of war segir að Prigozhin hafi nýverið viððurkennt slæmt gengi við Bakhmut og sagt að hersveitir sínar sæki einungis um hundrað til tvö hundruð metra fram á degi hverjum.
Eastern #Ukraine Update:
— ISW (@TheStudyofWar) October 25, 2022
Wagner Group financer Yevgeny Prigozhin acknowledged the slow pace of Wagner Group ground operations around #Bakhmut as #Russian forces continued to lose ground near the city. /2https://t.co/Nk9AjK0Mmj pic.twitter.com/qp7KfAQNwj