Það er alltaf nóg að gera hjá þeim 80 starfsmönnum, sem vinna hjá Mjólkursamsölunni á Akureyri en í samsölunni fer meðal annars fram mjólkurátöppun, smjörgerð, fjölbreytt ostagerð, auk framleiðsla á ýmsum öðrum mjólkurvörum á borð við súrmjólk, grjónagraut og ostakökur. Já, talandi um grjónagraut, það er sú vara, sem hefur algjörlega slegið í gegn hjá MS á Akureyri.
“Það er bara allt gott að frétta, það er nóg að gera í grautnum. Við framleiðum frá 20 til 25 þúsund dósir í hverri viku af þessum graut . Það er bæði 500 gr. grauturinn og svo eru við náttúrulega með kanil í neytendapakkningum”, segir Jón Ingi Guðmundsson verkstjóri hjá MS á Akureyri.
“Það hafa nú margir viljað frá slátur í lokið en við erum ekki enn komin svo langt. Við verðum líklega að fara að finna út úr því hvernig við komum slátrinu fyrir,” bætir hann við og hlær.
En hvað með rúsínur?
“Já, það eru allir möguleikar til, við getum sett hvað sem er en þetta krefst bara undirbúnings. Við verðum að hafa þetta sér pakkað því þetta er svolítið vandmeð farið innan um matvælaframleiðsluna að koma með súrt slátur og rúsínur í gegnum framleiðsluna, við þurfum að passa þetta vel. Ég útiloka ekkert, það eru ýmsir möguleikar til.”

En hvað segir Jón, af hverju er grjónagrauturinn svona vinsæll ?
“Það þekkja allir grjónagraut frá sínu heimili og það er náttúrulega mjög þægilegt að geta gripið þetta út í búð og hent þessu beint í pottinn eða borðað bein úr dós. Við fengum grjónagrautinn á sínum tíma frá Selfossi þegar verkaskiptingin varð hér um árið og við létum KEA skyrið af hendi suður og við fengum grjónagraut og ostakökur í staðin,” segir Jón Helgi.
En var ekki erfitt að láta KEA skyrið frá sér?
“Jú, það var mjög erfitt að missa það en það gengur bara vel að framleiða KEA skyr á Selfossi, þá eru allir ánægðir”, segir verkstjórinn Jón Helgi kampakátur.
