Miðjusætið er ótvírætt versta sætið í flugvélum. Þú færð hvorki að sitja við gluggann né að geta skotist á klósettið án þess að vekja alla í röðinni. Þess í stað ertu fastur í kremju milli tveggja einstaklinga, sem þú oft á tíðum þekkir ekki einu sinni.
Í könnun sem flugfélagið Virgin Australia gerði kom fram að einungis 0,6 prósent flugfarþega kjósa að sitja í miðjunni. 99,4 prósent vilja heldur sitja við gang eða glugga.
Til þess að umbuna þeim sem verða fyrir því óláni að sitja í miðjunni hefur flugfélagið byrjað með miðjusætishappdrætti. Þeir sem sitja í miðjusætinu, hvort sem þeir gera það viljandi eða hafa verið neyddir til þess, verða skráðir í happdrætti á vegum flugfélagsins.
Samkvæmt frétt CNN eru vinningarnir metnir á 230 þúsund ástralskra dollara, rúmlega 21 milljón íslenskra króna.
Meðal þess sem miðjusætisfarþegar geta unnið eru fríar flugferðir með flugfélaginu, ókeypis teygjustökk, fría ferð til Cairns í Ástralíu og þyrlu-pöbbarölt. Í venjulegu pöbbarölti er auðvitað rölt á milli veitingastaða sem bjóða upp á áfengi. Í þyrlu-pöbbarölti er hins vegar flogið á milli bæja þar sem mismunandi veitingastaðir eru heimsóttir.