Erlent

Sam­komu­lag um að banna nýja jarð­efna­elds­neytis­bíla í höfn

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýir bensín- og dísilbílar verða í reynd bannaðir innan Evrópu eftir 2035 með lögum sem samstaða hefur nú náðst um.
Nýir bensín- og dísilbílar verða í reynd bannaðir innan Evrópu eftir 2035 með lögum sem samstaða hefur nú náðst um. Vísir/EPA

Evrópusambandið náði samkomulagi um lög sem myndu í reynd banna nýja bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2035 í dag. Samkvæmt því þurfa bílaframleiðendur að ná 100% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda innan þrettán ára.

Fulltrúar aðildarríkjanna 27, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnarinnar tilkynntu um samkomulagið í dag. Jan Huitema, aðalsamningamaður Evrópuþingsins, lýsti því sem góðum fréttum fyrir ökumenn þar sem bílar sem losa ekki koltvísýring verði ódýrari og aðgengilegri fyrir alla.

Auknar kröfur verða einnig gerðar til losunar þeirra jarðefnaeldsneytisbíla sem verða seldir frá og með 2030. Fólksbílar þurfa að losa 55 prósent minni koltvísýring en árið 2021. Núverandi markmið er 37,5 prósent samdráttur, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Sendiferðabílar þurfa að verða helmingi sparneytnari fyrir 2030.

Lögin eru liður í áætlun Evrópusambandsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni um 55 prósent fyrir lok áratugsins miðað við losun árið 1990 og þau fyrstu sem formlegt samkomulag næst um.

Evrópusambandið vonast til þess að hægt verði að tilkynna um samkomulag um tvær meiriháttar loftslagsaðgerðir til viðbótar fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi í næstu viku. Annars vegar um aukna bindingu kolefnis og bindandi landsmarkmið um samdrátt í losun.

Vísindamenn áætla að mannkynið allt þurfi að draga úr losun sinni um 45 prósent fyrir lok þessa áratugs ef það ætlar að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um að takmarka hlýnun við eina og hálfa gráðu fyrir lok aldarinnar. Að óbreyttu stefnir í að hlýnunin nái tveimur og hálfri gráðu.


Tengdar fréttir

Telja að orkukreppan geti hraðað orkuskiptunum

Hækkandi orkuverð vegna stöðu efnahagsmál og stríðsins í Úkraínu gæti leitt til þess að heimsbyggðin skipti hraðar yfir í endurnýjanlega orkugjafa, að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar. Hún spáir nú í fyrsta skipti að útlit sé fyrir að eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti nái hámarki um miðjan næsta áratug.

Stefnir í tveggja og hálfrar gráðu hlýnun á meðan ríki draga lappirnar

Útlit er fyrir að hnattræn hlýnun nái tveimur og hálfri gráðu fyrir lok aldarinnar ef ríki heims auka ekki metnað sinn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er heilli gráðu meira en stefnt er að með Parísarsamkomulaginu til þess að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×