Lazio hafði betur í slag Rómarliðanna í ítalska boltanum í dag. Felipe Anderson skoraði eina mark leiksins og sigurinn þýðir að Lazio fer upp fyrir nágranna sína í töflunni.
Það er alltaf hart barist þegar nágrannaliðin í ítölsku höfuðborginni mætast og leikurinn í dag var engin undantekning. Fyrir leikinn var Roma í fjórða sæti deildarinnar og Lazio í því fimmta einu stigi á eftir.
Felipe Anderson skoraði eina mark leiksins á 29.mínútu en skömmu síðar átti Nocolo Zaniolo skot í þverslána. Rómverjar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin í síðari hálfleiknum en lærisveinar Jose Mourinho þurftu að játa sig sigraða.
Með sigrinum er Lazio komið í þriðja sæti Serie A með 27 stig en þeir eru átta stigum á eftir toppliði Napoli. Roma er í fimmta sætinu með 25 stig.