Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning frá rekstrarstjóra fyrirtæksins um klukkan 3.30 í nótt, þar sem hann sagði innbrot standa yfir. Sást sá grunaði á öryggismyndavélum.
Lögregla fór á vettvang og handtók hinn grunaða á meðan beðið var eftir rekstrarstjóranum. Meintur gerandi kvaðst hafa nýtt sér þjónustu fyrirtækisins um kvöldið og síðan hafa sofnað. Fann lögregla tóm áfengisílát þar sem maðurinn svaf.
Þegar rekstrastjórinn kom gekk hann með lögreglu um fasteignina en engar skemmdir fundust né ummerki um innbrot eða þjófnað. Hafi rekstrastjórinn því ekki frammi neinar kröfur og var viðskiptavinurinn því laus allra mála.
„Það lítur því út fyrir að starfsmenn fyrirtækisins hafi læst meintan geranda inni á meðan hann svaf værum svefni. Hann síðan vaknað um nóttina, farið á stjá með þeim afleiðingum að öryggiskerfi fyrirtækisins fer í gang,“ segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.
Lögregla hafði afskipti af fleiri einstaklingum í hálfannarlegu ástandi, meðal annars einum sem er grunaður um að hafa sparkað í hund.