Innlent

Veitingahússgestir flúðu þegar maður stakk stórum hníf í borð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla handtókn manninn og gerði hnífinn upptækan.
Lögregla handtókn manninn og gerði hnífinn upptækan. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til í miðbænum í gærkvöldi þegar maður tók upp stóran hníf á veitingastað og stakk honum í borð sem hann sat við. Sá sem tilkynnti sagði atvikið hafa skotið viðskiptavinum skelk í bringu og yfirgáfu einhverjir staðinn.

Samkvæmt yfirliti frá lögreglu um verkefni næturinnar var einn handtekinn og hnífurinn haldlagður.

Í Vesturbænum var ekið á hjólreiðamanna sem var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku. Engar upplýsingar er að hafa um ástand viðkomandi.

Þá varð umferðaróhapp í póstnúmerinu 108 þar sem tveir lentu saman en annar ökumaðurinn lét sig hverfa. Lögregla handtók hann skammt frá og reyndist hann vera undir áhrifum áfengis. Töluvert tjón varð á bifreiðunum en engan slasaði.

Í sama hverfi var brotist inn í bifreið en ökumaðurinn hafði skilið við hana stutta stund. Var þeim verðmætum stolið sem voru sýnileg, segir í tilkynningu lögreglu.

Lögregla hafði einnig afskipti af manni sem reyndist vera með töluvert magn fíkniefna í fórum sínum, sem lögregla telur hafa verið ætluð til sölu. Maðurinn reyndist einnig dvelja hér ólöglega og var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×