Ferðamannastraumur um svæðið við Kirkjufell hefur aukist síðustu árin en nokkur þúsund manns koma þar við á góðum sumardögum.
Á sama tíma hafa göngur á fjallið hafa færst í aukana og slysum fjölgað. Eftir sameiginlegan fund landeiganda, bæjarstjóra Grundafjarðarbæjar, viðbragðsaðila og fleiri um helgina var ákveðið að banna göngur á Kirkjufell til 15. júní á næsta ári.
„Þrjú banaslys á fjórum árum, það er bara of mikið. Það er bara ekkert ásættanlegt. Fyrir utan að einhver önnur slys hafa orðið. Svo þegar það gerist þá fellur fólk niður á erfiða staði og þá erum við að setja líka viðbragðsaðila í hættu við að bjarga fólkinu,“ segir Jóhannes Þorvarðarson landeigandi.

Ferðamennirnir láti ekki frost og kulda stoppa sig en undanfarna daga hafi nokkrir gengið þar upp. Þrátt fyrir að skilti á svæðinu segi fólki að útbúa sig vel fyrir göngurnar þá fari fáir eftir því og margir séu illa skóaðir.
„Það er enginn hér í byggð sem að hefur stundað það að fara upp á Kirkjufell nema í þurru og góðu veðri. Fólk hér á svæðinu það fer aldrei þarna upp, sem að ekki hefur farið áður, nema í fylgd með reyndari mönnum. Ekki eins og þessir túristar eru að gera að fara þarna án nokkurrar þekkingar á fjallinu.“
Samráðsnefnd mun fara betur yfir málið og skoða hvernig aðgengi að svæðinu verði háttað til framtíðar. Þá verða nú sett upp skilti sem sýnir að uppganga sé bönnuð.
„Svo treystum við bara á að allir aðilar sem að sinna ferðamannaþjónustu og upplýsingum til ferðamanna kynni þetta fyrir ferðamönnum. Þannig að fólk bara sjái að sér sjálft og sé ekki að fara þarna upp að óþörfu.“