Metan er enn öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur til skemmri tíma litið og því er talið lykilatriði að skera losun þess niður hratt til þess að hægt verði að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um að takmarka hnattræna hlýnun við eina og hálfa gráður á þessari öld.
Mikil metanlosun fer þó fram hjá losunarbókhaldi ríkja. Gasið sleppur frá lekum pípum og jarðgaslindum en einnig frá búfénaði og landfyllingum með lífrænum úrgangi manna. Washington Post sagði nýlega frá því að rannsóknir bentu til þess að metanlosun væri allt frá 57 til 76 milljónum tonnum meiri á ári en ríki gefa upp til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Það er á bilinu 1,6 til 2,1 milljarður tonna koltvísýringsígilda.
Metanviðvörunar- og viðbragðskerfi Sameinuðu þjóðanna (MARS) verður tekið í gagnið á næsta ári. Umhverfisstofnun SÞ sagði í dag að kerfinu væri ætlað að hjálpa fyrirtækjum að bregðast við meiriháttar metanlosun en einnig að útvega gegnsæ og óháð gögn um umfang losunarinnar. Það eigi að tryggja að til séu upplýsingar sem taldar séu hlutlausar og áreiðanlegar.
Kerfið byggir á athugunum gervihnatta bandarísku, evrópsku, þýsku og ítölsku geimstofnananna en gögn frá einkareknum gervihnöttum verða einnig notuð þegar fram líða stundir, að sögn AP-fréttastofunnar. Til stendur að birta fyrstu niðurstöður um meiriháttar metanleka á seinni hluta næsta árs.
Gögnin úr mælingunum verða birt 45 til 75 dögum eftir að þeim er safnað til þess að fyrirtækin fái nægan tíma til þess að stöðva lekana áður en greint er frá þeim opinberlega.
„Við teljum mikilvægt að búa ekki bara til tól til þess að smána heldur til að fá rekstraraðila og ríkisstjórnir í lið með okkur svo að þær geti brugðist við tilteknum atburðum,“ segir Manfredi Caltagirone, yfirmaður Alþjóðlega metanlosunareftirlitsins hjá umhverfisstofnun SÞ.
Engin leið verður þó til þess að neyða fyrirtæki til þess að bregðast við upplýsingum um metanlekana.
„Við erum raunsæ með það að ákveðin fyrirtæki og ákveðin lönd verða samvinnuþýðari en önnur en við getum tryggt að þessar upplýsingar verði aðgengilegar þeim sem hafa áhuga á þeim,“ segir Caltagirone.