Enski boltinn

Maguire má yfir­gefa Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire er fyrirliði Manchester United en hefur þó lítið fengið að spila á leiktíðinni.
Harry Maguire er fyrirliði Manchester United en hefur þó lítið fengið að spila á leiktíðinni. EPA-EFE/Peter Powell

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum breska fjölmiðilsins The Guardian mun Manchester United reyna að selja Harry Maguire næsta sumarið. Félagið keypti hann dýrum dómum sumarið 2019 en hann er ekki í plönum Erik ten Hag sem stendur.

Þegar Erik ten Hag tók við stjórnartaumunum hjá Man United síðasta sumar þá lagði hann mikið púður í að kaupa miðvörðinn Lisandro Martínez frá fyrrum félagi sínu Ajax. Það gekk eftir og þó Martínez hafi átt erfitt uppdráttar í upphafi tímabils þá hefur hann verið frábær allar götur síðan.

Martínez og Raphaël Varane hafa myndað aðalmiðvarðarpar Man United undnafarið en líkt og svo oft áður hefur Varane verið að glíma við meiðsli. Victor Lindelöf hefur hins vegar þá fengið kallið og því ljóst að hinn 29 ára gamli Maguire er orðinn fjórði kosturinn í miðvarðarstöðuna.

Sumarið 2019 greiddi Man United metfé fyrir Maguire en hann varð þá dýrasti miðvörður allra tíma og er 16. dýrasti leikmaður allra tíma. Nú virðist hins vegar sem dagar hans séu taldir og að Man United muni reyna að losa sig við hann næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×