Í þættinum Um land allt á Stöð 2 segir Ólafur frá æskuárunum við Elliðavatn en það var árið 1961 sem Guðmundur og eiginkona hans, Ólafía Ólafsdóttir, byggðu sér hús við vatnið, sem þau nefndu Víðivelli. Þar ólu þau upp fimm syni og héldu einnig húsdýr framanaf.

Guðmundur í Víði var á þeim árum einn kunnasti iðnrekandi landsins. Það þótti aðdáunarvert að honum skyldi hafa tekist að byggja upp eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins með eitthundrað manns í vinnu þrátt fyrir að vera blindur.

Örorkan kom heldur ekki í veg fyrir að hann ræktaði upp sælureit fjölskyldunnar með lystigarði þar sem áður var berangur með móa og melum. Þá smíðaði hann bátaskýli við vatnið sem hýsti einnig vatnsdælu.
„Pabbi vildi hafa árnið þannig að hann smíðaði foss hér og með dælu hérna niðri. Það var mikið mas oft að koma þessu í gang og láta fossinn ganga hér á sumrin. Svo lá pabbi hér í þessari kvos hér fyrir neðan undir blómabeði,“ segir Ólafur.

Þátturinn Um land allt um Elliðavatn verður endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag, klukkan 15:05. Einnig má nálgast hann á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá fimm mínútna kafla úr þættinum þar sem Ólafur segir frá föður sínum og manngerða fossinum:
Síðari þátturinn um Elliðavatn og vatnasvið þess er á dagskrá Stöðvar 2 annaðkvöld, mánudagskvöld. Hér má sjá kynningarstiklu seinni þáttarins: