Körfubolti

Ragnar og Hörður kallaðir inn gegn Úkraínu

Sindri Sverrisson skrifar
Hörður Axel Vilhálmsson verður í landsliðsbúningnum í dag en óvíst er hve mikið hann getur beitt sér.
Hörður Axel Vilhálmsson verður í landsliðsbúningnum í dag en óvíst er hve mikið hann getur beitt sér. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Tvær breytingar voru gerðar á landsliðshópi Íslands eftir tapið nauma gegn Georgíu á föstudag, fyrir leikinn mikilvæga við Úkraínu í dag, í undankeppni HM karla í körfubolta.

Craig Pedersen landsliðsþjálfari getur ekki nýtt krafta Hauks Helga Pálssonar í dag en Haukur glímdi við meiðsli í nára í aðdraganda leiksins við Georgíu og missir af leiknum mikilvæga í dag vegna meiðsla.

Í stað Hauks verður Hörður Axel Vilhjálmsson „í búningi“ í dag eins og það er orðað í tilkynningu frá KKÍ, en Hörður Axel hefur nefnilega einnig glímt við meiðsli.

Þá kemur hinn hávaxni Ragnar Ágúst Nathanaelsson, sem í vetur leikur með 1. deildarliði Hamars í Hveragerði, inn fyrir KR-inginn Þorvald Orra Árnason.

Leikur Úkraínu og Íslands fer fram í Riga í Lettlandi og hefst klukkan 14 að íslenskum tíma. Hann verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Íslenski hópurinn gegn Úkraínu:

  • Elvar Már Friðriksson · Rytas Vilnius, Litháen (62)
  • Hilmar Pétursson · Muenster, Þýskalandi (3)
  • Hörður Axel Vilhjálmsson · Keflavík (95)
  • Jón Axel Guðmundsson · Victoria Libertas Pesaro, Ítalíu (22)
  • Kári Jónsson · Valur (29)
  • Kristófer Acox · Valur (49)
  • Ólafur Ólafsson · Grindavík (51)
  • Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Hamar (56)
  • Sigtryggur Arnar Björnsson · Tindastóll (25)
  • Styrmir Snær Þrastarson · Þór Þorlákshöfn (6)
  • Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza, Spáni (55)
  • Ægir Þór Steinarsson · CB Lucentum Alicante, Spáni (77)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×