Vegurinn hefur verið lokaður frá því á fimmtudagsmorguninn þegar stór skriða féll nokkur hundruð metra úr fjallinu fyrir ofan og yfir veginn. Tveir bílar lentu í skriðunni en engan sakaði.
Frá því á fimmtudaginn hafa sérfræðingar Veðurstofunnar unnið að því að meta frekari skriðuhættu. Þá hóf Vegagerðin vinnu í gær við að hreinsa veginn.
Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að eftir greiningu á gögnum sé niðurstaðan sú að ekki hafi orðið vart við frekari hreyfingar í fjallinu. Einnig sjást ekki ummerki um að sérstök hætta sé á frekari skriðuföllum.
„Þá hefur ekki verið úrkoma undanfarið og heldur kólnað i veðri, sem er hagstætt. Líkur á frekari skriðuföllum þykja því það litlar að forsvaranlegt sé að opna veginn á ný fyrir almennri umferð,“ segir í færslunni.
Því er búið að opna fyrir umferð um veginn.
„Vegfarendum er þó bent á að þrátt fyrir að líkur á stórri skriðu séu taldar litlar sé ekki að fullyrða með vissu um frekari skriðuföll. Vegfarendur verði því að meta sjálfir hvort þeir vilji fara þessa leið eða velja aðra. Hjáleið hefur verið um Dalsmynni síðustu daga.
Fólk er hvatt til að fara frekar um svæðið í dagsbirtu en myrkri því ef frekari skriðuföll verða er ákveðin hætta á að ekið sé inn í skriðuna ef myrkur er.“
Einnig viljum við beina því til fólks að stoppa alls ekki á skriðusvæðinu til að taka myndir eða svala forvitninni. Það eykur bara hættu og getur truflað aðra umferð. Farið varlega en akið hiklaust í gegn.
Að auki eru vegfarendur hvattir til að hringja í Neyðarlínuna og láta vita verði þeir varir við fleiri skriður, eða eitthvað annað óvenjulegt, á svæðinu.
Fréttin hefur verið uppfærð.