Körfubolti

Lygileg frumraun Dwight Howard í Taívan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dwight Howard.
Dwight Howard. vísir/Getty

Tröllvaxni körfuboltamaðurinn Dwight Howard færði sig um set á dögunum og yfirgaf NBA deildina til þess að ganga í raðir Taoyuan Leopards sem leikur í Taívan.

Þessi 36 ára gamli leikmaður var valinn fyrstur í nýliðavali NBA deildarinnar árið 2004 og varð fljótlega einn af vinsælli leikmönnum deildarinnar þar sem hann lék með Orlando Magic.

Howard var valinn í úrvalslið deildarinnar fimm ár í röð frá 2008-2012 en eftir að hann yfirgaf Magic sumarið 2012 náði ferillinn ekki því flugi sem margir bjuggust við. Hann var þó hluti af meistaraliði Los Angeles Lakers 2020 en í algjöru aukahlutverki.

Í byrjun mánaðarins vakti mikla athygli þegar Howard ákvað að semja við taívanska úrvalsdeildarliðið Taoyuan Leopards en taívanska deildin er ekki ýkja hátt skrifuð í heimskörfuboltanum.

Frumraun Howard var ansi skrautleg en hann var besti maður vallarins með 38 stig, 25 fráköst og 9 stoðsendingar og hjálpaði liðinu að vinna sigur í framlengdum leik í gærkvöldi.

Það sem vekur kannski enn frekar athygli er að Howard, sem hefur aðallega hagað sínum leik þannig í NBA deildinni að leika undir körfunni var í allt öðru hlutverki í leiknum.

Til að mynda átti hann tíu þriggja stiga tilraunir í leiknum en hann hefur ekki verið þekktur fyrir góða skotnýtingu utan af velli á ferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×