Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. Þar kemur fram að forystufólk í pólsku stjórnmála-, viðskipta- og menningarlífi, auk fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Póllandi og pólsk-íslenskra vináttufélaga verði viðstatt þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra opnar sendiráðið formlega.
Haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu að samskipti Íslands og Póllands hafi aukist verulega á undanförnum árum, ekki síst vegna þess fjölda Íslendinga sem reki uppruna sinn til Póllands og Pólverja sem búsettir séu á Íslandi.
„Ég tel því ljóst að ýmis tækifæri eru uppi til að efla enn frekar samstarf þjóðanna, til dæmis á sviðum stjórnmála, efnahags og menningar. Ég er viss um að sendiráðið okkar í Varsjá á eftir að hafa mikið að segja í þeim efnum,“ segir Þórdís Kolbrún.
Utanríkisráðherra tilkynnti um ákvörðun sína um að íslenskt sendiráð verði stofnsett í Varsjá í mars síðastliðnum. Pólsk stjórnvöld hafa starfrækt sendiskrifstofu í Reykjavík frá 2008, fyrst með aðalræðisskrifstofu og frá 2013 sem fullgilt sendiráð. Með opnun sendiráðs Íslands í Varsjá kemst því loksins á gagnkvæmni í stjórnmálasambandi ríkjanna.