Obiang varð fyrst forseti árið 1982 en þrjú ár fyrir það var hann leiðtogi herstjórnar landsins. Hann hefur verið forseti í fjörutíu ár og einn mánuð, einum mánuði meira en Paul Biya, forseti Kamerún.
Síðan árið 1982 hafa Miðbaugs-Gíneumenn fimm sinnum kosið sér forseta og hefur Obiang alltaf sigrað, iðulega með yfir níutíu prósent atkvæða.
Á sunnudaginn gengu þeir að kjörborðinu og sem stendur hefur sitjandi forseti hlotið 99,7 prósent talinna atkvæða. CNN segir mótframbjóðanda Obiang hafa sakað forsetann um kosningasvindl. Hann vill meina að yfirvöld hafi neytt fólk til að kjósa Obiang og kosið fyrir hönd fólks sem ætlaði sér ekki að kjósa.
Miðbaugs-Gínea er mikið jarðefnaeldsneytisríki og lifa þeir valdamestu í landinu afar dýrum lífsstíl á meðan sjötíu prósent íbúa glíma við fátækt.