Erlent

Tveir handteknir fyrir njósnir í Svíþjóð

Samúel Karl Ólason skrifar
Sænskur lögregluþjónn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Sænskur lögregluþjónn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/JOHN NILSSON

Svíar hafa handtekið tvo grunaða njósnara. Hinir meintu njósnarar voru handteknir í Stokkhólmi en annar þeirra er grunaður um njósnir gegn bæði Svíþjóð og öðru landi. Hinn er grunaður um að aðstoða þann fyrri við hinar meintu njósnir.

Í yfirlýsingu frá öryggislögreglu Svíþjóðar segir að húsleit hafi verið gerð og að þriðja manneskjan hafi verið færð til yfirheyrslu vegna rannsóknarinnar. Sú rannsókn er sögð hafa staðið yfir um nokkuð skeið með aðstoð annarra löggæsluembætta og sænska hersins.

Herinn útvegaði tvær þyrlur og áhafnir sem notaðar voru þegar atlaga var gerð að hinum meintu njósnurum í Stokkhólmi í morgun.

Þá hefur SVT eftir Fredrik Hultgren-Friberg, talsmanni sænsku öryggislögreglunnar, að málið tengist ekki öðrum málum sem séu þegar til rannsóknar. Hann segir einnig að hlutverk öryggislögreglunnar væri að verja Svíþjóð og lýðræðið og ekki væri hægt að leyfa njósnurum annarra ríkja að starfa innan Svíþjóðar, hvort sem þeir njósni gegn Svíþjóð eða öðru ríki.

Ekki er vitað hvert hitt landið sem mennirnir eiga að hafa verið að njósna um er og hefur öryggislögreglan ekki viljað gefa það upp vegna rannsóknarhagsmuna. Sömuleiðis hefur lögreglan ekki gefið upp hvaðan mennirnir eru.

Aftonbladet segir þó ný dómsgögn benda til þess að þessar meintu njósnir hafi staðið yfir í tíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×