Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands kom í eins dags vinnuheimsókn til Reykjavíkur í morgun til að funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þær komu saman í Norræna húsinu sem var teiknað af Alvar Aalto einum frægasta arkitekt Finnlands.
Forsætisráðherrarnir ræddu mörg málefni á fundi sínum eins og loftslagsmál, jafnrétti kynjanna og geðheilbrigði unga fólksins og svo auðvitað öryggismál.

„Eins og þið flest vitið þá var Ísland á meðal fyrstu ríkja til að samþiggja umsóknir Finnlands og Svíþjóðar að NATO hér á Alþingi. Stuðningur okkar er sterkur og við vonum einlæglega að hægt verði að ljúka þessu ferli sem fyrst," sagði Katrín.
Að loknum fundi þeirra í Norræna húsinu áttu forsætisráðherrarnir opnar umræður í Þjóðminjasafninu. Þar sagði finnski forsætisráðherrann innrás Rússa í Úkraínu hafa gjörbreytt stöðu varnarmála í Finnlandi.
„Ég tel að hugur fólks hafi breyst um leið og Rússar réðust á Úkraínu. Vegna þess að við deilum 1.300 kílímetra landamærum með Rússlandi. Við eigum einnig mjög erfiða sögu með Rússum og höfum átt í stríði við þá. Við viljum tryggja að við höfum NATO landamæri að Rússlandi í framtíðinni sem Rússa fara ekki yfir," sagði Marin. Án innrásarinnar væru Finnar sennilega ekki að sækja um aðild að NATO.

Forsætisráðherrarnir voru sammála um nauðsyn þess að veita Úkraínu allan þann stuðning sem þyrfti til að tryggja Úkraínumönnum sigur í stríðinu. Að öðrum kosti muni Rússar ógna öðrum ríkjum Evrópu næst eins og Moldóvu og Eistrasaltsríkjunum að mati Marin.
„Þetta er ögurstund. Við verðum að tryggja að Úkraína hafi sigur í stríðinu með okkar aðstoð og við verðum að standa fast á því. Vegna þess að ef við verjum ekki gildi okkar núna og segjum; samþiggjum einhvers konar frið, takið bara þennan hluta Úkraínu. Þá bíður þetta okkar bara í framtíðinni og við verðum ítrekað í stríðsástandi í Evrópu,“ segir Sanna Marin.