Aðgerðum slökkviliðs er lokið á vettvangi. Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH segir að þeirra bíði ærið verk á morgun og næstu daga við að þrífa húsið. „Eldhúsið er ónýtt, við förum bara í það á morgun að moka allt út. Það þarf að heilþrífa alla eignina út af reyk og mengun,“ segir Gunnar í samtali við fréttastofu.

Gunnar segir ljóst að kviknað hafi í út frá uppþvottavél sem brann yfir. „Þetta hefur náð að krauma í einhvern tíma. Það var einhver smá eldur í vélinni sem mallaði staðbundið en reykurinn dreifðist hraustlega um allt húsið.“
Gunnar segir að sem betur fer sé tjónið ekki mikið og þakkar það góðu öryggiskerfi. „Það sannaði svo sannarlega gildi sitt. Þetta hefði geta orðið mikið tjón, í þessu húsi er allt fullt af hljóðfærum og raftækjum. Þetta fór sannarlega betur en á horfðist.“