Innlent

Starfs­manninum sem ber á­byrgð á kyn­lífs­mynd­bandinu sagt upp

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Starfsfólk er sagt miður sín vegna málsins.
Starfsfólk er sagt miður sín vegna málsins. Vísir/Vilhelm

Í ljós hefur komið að starfsmaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu ber ábyrgð á kynlífsmyndbandi sem tekið var upp í sjúkrabifreið og fór í dreifingu. Starfsmanninum hefur verið sagt upp.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá slökkviliðinu en atvikið var sett í skoðun þegar nafnlaus ábending um myndbandið barst. Þegar málið fór í fjölmiðla bárust slökkviliðinu frekari upplýsingar.

„Í kjölfar nánari rannsókna kom því miður í ljós að starfsmaður hjá SHS bar ábyrgð á þessu myndskeiði. Málinu er formlega lokið gagnvart honum og starfar hann ekki lengur hjá SHS,“ segir í tilkynningunni.

Starfsfólk slökkviliðsins er sagt miður sín vegna málsins.

Tilkynningu slökkviliðsins má lesa í heild sinni hér að neðan. 

Myndbandsupptaka í sjúkrabifreið

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) fékk nafnlausa ábendingu um að kynlífsmyndband hafi verið tekið upp í sjúkrabíl á vegum liðsins. Ábendingin var tekin alvarlega og farið í að rannsaka málið innanhúss. Við fyrstu skoðun var ekki hægt að staðfesta málið með þeim gögnum sem þá lágu fyrir. Eftir að málið fór í fjölmiðla í gær komu fleiri ábendingar sem hægt var að fylgja eftir.

Í kjölfar nánari rannsókna kom því miður í ljós að starfsmaður hjá SHS bar ábyrgð á þessu myndskeiði. Málinu er formlega lokið gagnvart honum og starfar hann ekki lengur hjá SHS.

Við erum algjörlega miður okkar að allt það frábæra starfsfólk sem starfar hjá SHS, vinnustaðurinn og okkar störf hafi verið dreginn inn í mál af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×