Skoðun

(Sér)íslensk jólaljós á krepputímum

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Jólaljósin í skammdeginu á Íslandi eru eitt af mörgu sem er í uppáhaldi hjá mér við jólin. Maðurinn minn fór án mín í jólaljósa-innkaup á dögunum og missti sig örlítið. Það verður í það minnsta enginn runni hjá okkur óupplýstur þetta árið.

Það kólnaði talsvert í vikunni. Nóg til þess að ég fór á milli ofna á heimilinu og skrúfaði þá vel upp.

Þetta hljóma eins og hversdagsleg vetrarverk, en er í raun mjög fjarri veruleika flestra nágranna okkar í Evrópu. Það er nefnilega orkukrísa í Evrópu og þar leggjast allir á eitt við að spara orku. Smitskömm hefur vikið fyrir orkuskömm.

Við Íslendingar erum hins vegar í algjörri forréttindastöðu í þessum málum og tengjum illa við bága stöðu á meginlandinu. En staðan okkar kom ekki af sjálfu sér; datt ekki af himnum ofan. Hér höfðu íslensk stjórnvöld, bæði í ríki og borg, hugrekki til þess að fara í orkuskipti á síðustu öld.

Glæfralegar ákvarðanir forsvarsmanna Evrópusambandsins, einkum Þýskalands, leiddu hins vegar til þeirrar stöðu álfunnar, að hún er háð rússneskri orku. Íbúarnir súpa nú seyðið af því. Og þótt mér leiðist ekki að gagnrýna Evrópusambandið, þá er mikilvægt að við leggjum Evrópu lið og deilum með þeim þekkingu okkar á orkumálum. Það er nefnilega sameiginlegt markið okkar að vinna gegn loftslagbreytingum og bæta orkuöryggi.

Hér heima eru grænu orkuskiptin framundan risastórt verkefni, en við höfum sofnað á verðinum undanfarin ár. Við þurfum að forgangsaða orkuskiptum og leggjast á eitt við að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Ástandið í Evrópu er brýn áminning um það.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×