Sport

„Það var of stór biti að lenda fimm mörkum undir“

Andri Már Eggertsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leik.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leik. Vísir/Hulda Margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var afar svekktur með þriggja marka tap gegn Ystad á heimavelli 29-32.

„Það er erfitt að greina hvað fór úrskeiðis beint eftir leik. Það var slæmur kafli í upphafi síðari hálfleiks þar sem við lentum fimm mörkum undir sem var of stór biti,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson eftir leik.

Í stöðunni 18-18 náði Ystad frábærum kafla þar sem gestirnir frá Svíþjóð gerðu fimm mörk í röð.

„Það var eitt og annað sem fór úrskeiðis. Þeir skoruðu auðveld mörk á meðan tókst okkur ekki að skora hinu megin sem gerði þetta erfitt fyrir okkur.“

Það vakti athygli að Snorri Steinn Guðjónsson tók ekki eitt einasta leikhlé í leiknum aðspurður hvers vegna fannst honum það ekki þurfa.

Eftir að hafa lent fimm mörkum undir hafði Valur fyrir því að minnka forskot Ystad niður í eitt mark en nær komst Valur ekki og Snorri var með einfalda skýringu hvers vegna Ystad vann að lokum þriggja marka sigur.

„Þeir voru betri.“

Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals, fór út af meiddur en Snorri Steinn vissi ekki hvers vegna.

„Benedikt fór út af meiddur en ég er ekki sjúkraþjálfari og veit ekki hvað gerðist.“

Eftir að hafa byrjað á að vinna fyrstu tvo leikina í Evrópudeildinni hefur Valur tapað þremur leikjum og gert eitt jafntefli.

„Það var vonbrigði að fá ekki meira út úr leiknum í Frakklandi, vonbrigði að vinna ekki í Ungverjalandi og vonbrigði að tapa hérna heima,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×