Héraðsstjóri Kænugarðs Oleksiy Kuleba segir þó að loftvarnakerfi Úkraínumanna hafi gripið inn í og svo virðist sem flestar flaugarnar hafi verið skotnar niður áður en þær hittu skotmörk sín.
Rússar hafa ítrekað skotið á orkuinnviði Úkraínumanna síðustu vikur og mánuði með eldflaugum og drónum.
Klitschko borgarstjóri bætti því við í morgun að tíu drónar hafi verið skotnir niður og að þeir hafi verið af íranskri gerð. Brot úr einum slíkum er sagt hafa lent á stjórnarráðsbyggingum í miðborginni en fregnir af manntjóni hafa ekki borist.
Úkraínumenn hafa sakað Íran um að láta Rússum í té dróna af gerðinni Shahed en Íranir neituðu upphaflega fyrir það. Síðar viðurkenndu þeir að Rússar hafi fengið slíka dróna, en þó hafi það gerst áður en þeir réðust inn í Úkraínu.