Lagt var fram bréf skrifstofustjóra menningarmála um samninga við ýmsar menningarhátíðir á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs fyrir helgi. Sex hátíðir eru útnefndar sérstakar borgarhátíðir Reykjavíkurborgar árin 2023-2025. Markmið með útnefningu borgarhátíða er að styðja framþróun og grundvöll slíkra hátíða, og til að efla menningarlífið í borginni.
Hátíðirnar sex bera ýmist erlend eða íslensk heiti: Reykjavik Dance Festival, Óperudagar, Hinsegin dagar, Hönnunarmars, Iceland Airwaves og RIFF. Hátíðirnar fá frá fimm milljónum upp í tíu milljónir í styrk.
Sjálfstæðismönnum þykir eðlilegt að notuð verði íslensk heiti.
„Æskilegt er að gerð verði krafa um að slíkar hátíðir, sem njóti opinberra styrkja, beri íslensk heiti þótt þær kunni einnig að bera erlend heiti vegna markaðssetningar erlendis. Slíkt er í samræmi við málstefnu Reykjavíkurborgar þar sem segir að íslenska skuli vera í öndvegi í allri þjónustu og stjórnsýslu borgarinnar,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins um málið.