Innlent

Veðrið orðið vitlaust á Suðurnesjum og ökumenn varaðir við

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Reykjanesbraut klukkan 21:45 í kvöld.
Úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Reykjanesbraut klukkan 21:45 í kvöld. Vegagerðin

Veður er orðið vitlaust á Suðurnesjum og færð farin að spillast verulega. Aðalvarðstjóri segir orðið afar blint á mörgum vegum en engum hefur verið lokað enn sem komið er.

Gul veðurviðvörun tók gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði klukkan 21. Sölvi Rafn Rafnsson, aðalvarðstjóri á Suðurnesjum, segir vonda veðrið hafa komið fyrr en búist hafi verið við.

„Það er orðið vitlaust veður á Suðurnesjunum,“ segir Sölvi Rafn.

Mjög blint sé á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og sömuleiðis út í Suðurnesjabæ, Sandgerði og Garð. Hann brýnir fyrir fólki að fara einstaklega varlega. Ekki sé búið að loka neinum vegum enn sem komið er. Vegagerðin sinni mokstri á fullu.

Nú styttist í að ferðamenn fari að flykkjast út á Keflavíkurflugvöll í flug og vissara að varinn sé góður. Engin slys hafa orðið enn sem komið er en lögregla sé í viðbragðsstöðu.

Á vef Vegagerðarinnar segir að búast megi við því að færð spillist og að vegir geti lokast með stuttum fyrirvara á Snæfellsnesi, Reykjanesbraut, Hellisheiði og í Þrengslum.


Tengdar fréttir

Lægðin færir höfuðborgarbúum líkast til hvít jól

Lægð nálgast nú óðfluga vestur af landinu sem Veðurstofan varar við vegna strekkings suðaustanáttar og snjókomu. Útlit er fyrir að kuldakastið, sem verið hefur, muni vara áfram næsta hálfa mánuðinn. Snjókoman sem fylgir lægðinni í kvöld er verður þannig þess valdandi að höfuðborgarbúar og fleiri vestan til á landinu fá að öllum líkindum hvít jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×