Hangikjötslyktina lagði frá nýja Herkastalanum á Suðurlandsbraut þegar fréttastofu bar þar að garði um klukkan eitt í dag. Jólaboð Hjálpræðishersins fór þar fram, í fyrsta sinn á Þorláksmessu. Tæplega fimm hundruð snæddu jólamat hjá Hjálpræðishernum í dag og annar eins fjöldi fékk þar jólagjöf og matarpakka fyrir helgina.
Mikill meirihluti þeirra sem snæðir hjá Hjálpræðishernum er af erlendum uppruna, bæði flóttamenn frá Suður-Ameríku, Úkraínumenn og fólk frá Sýrlandi og Afganistan.
„Það eru mörg ný andlit hér í dag. Þannig að fólk er greinilega nýkomið og veit ekki hvert það á að fara,“ segir Sigrún Lára Hauksdóttir, móttökustjóri hjá Hjálpræðishernum.

Gestum líkaði íslenski jólamaturinn.
„Mér fannst maturinn frábær. Mjög góður,“ segir Isaias, sem er flóttamaður frá Venesúela og hefur verið hér á landi í tæpa sjö mánuði.
Coralia, vinkona hans frá El Salvador tekur undir: „Já, mjög góður matur. “
Og þau voru fegin félagsskapnum.
„Hann er mjög mikilvægur vegna þess að svona fáum við að kynnast nýjum menningarheimum og verja tíma með öðru fólki,“ segir Isaias, sem er einnig sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum.
Regina Melara tekur undir þetta en hún er ein þeirra flóttamanna sem nýttu sér þjónustu Hjálpræðishersins fyrstu mánuðina á landinu og hafa síðan fengið þar vinnu.
„Þegar ég kom hingað í fyrsta sinn var það vegna þess að ég var að leita að einhverjum góðum og fallegum stað og vildi kynnast fleiri Íslendingum,“ segir Regina.