Newcastle vann öruggan 3-0 sigur á Leicester City á öðrum degi jóla og fór með þeim sigri upp fyrir Englandsmeistara Manchester City í annað sæti deildarinnar. Manchester-liðið á þó tvo leiki inni á norðanmenn.
Newcastle hefur bætt leik sinn afar mikið frá því að Howe tók við í fyrra en félagið var keypt af fjárfestingarsjóði sádíska ríkisins. Liðið á því í djúpa vasa að sækja og ætla eigendur liðsins sér langt.
Lítið hefur þó borið á kaupum á stórstjörnum á Norður-Englandi hingað til, þó töluverðum fjármunum hafi verið eytt. Á miðað við lið Newcastle á pappír er óhætt að segja að lið Howe sé á undan áætlun í toppbaráttunni en þjálfarinn virðist þess fullviss að liðið sem hann er með í höndunum geti farið langt.
„Við getum gert hvað sem er,“ sagði Howe eftir sigurinn á Leicester.
„Þetta tímabilið er það skammt á veg komið að okkur standa allar dyr opnar. Ég vil að stuðningsmenn okkar trúi að við getum gert hvað sem er,“
„Mitt hugarfar mun ekki breytast, en fyrir mér er ekkert vandamál að stuðningsmenn láti sig dreyma um hvað við getum afrekað,“ sagði Howe.
Newcastle mætir Leeds í næsta deildarleik liðsins á gamlársdag áður en það mætir toppliði Arsenal snemma á nýju ári.