Bæði Megan Hess, 46 ára gamall eigandi útfararstofunnar, og Shirley Koch, 69 ára gömul móðir hennar, játuðu sig sekar um að hafa blekkt aðstandendur þeirra látnu. Þær voru sakaðar um að kryfja 560 lík og selja líkamshluta. Hess rak bæði útfararstofu og líffærasölu í sömu byggingu í bænum Montrose. Hún laug því að líkin hefðu verið brennd og rukkaði aðstandendur fyrir.
Saksóknarinn í málinu var harðorður í garð mæðgnanna. Þær hefðu í raun stolið líkamshlutum með því að falsa eyðublöð um líffæragjafir. Gjörðir þeirra hafi valdið fjölskyldum þeirra látnu miklum þjáningum.
Bandaríska alríkislögreglan FBI gerði húsleit á útfararstofunni skömmu eftir að Reuters-fréttastofan fjallaði um sölu á líkamshlutum í Bandaríkjunum og hvernig nær engar reglur giltu um þann iðnað.
Dómurinn sem Hess hlaut var sá þyngsti sem hún gat fengið samkvæmt lögum. Móðir hennar hlaut fimmtán ára dóm fyrir sinn þátt í svikunum.
Lögmaður Hess hélt því fram að hún væri ekki sú „norn“ eða „skrímsli“ sem hún hefði verið kölluð vegna málsins. Framferði hennar mætti rekja til heilaáverka sem hún hlaut þegar hún var átján ára gömul. Fyrir henni hafi vakað að liðka fyrir læknisfræðirannsóknum.
Ólöglegt er að selja líffæri eins og hjörtu, nýru og sinar í Bandaríkjunum. Engin alríkislög gilda aftur á móti um sölu á líkamshlutum eins og höfðum, handleggjum, mænum til rannsókna eða fræðslu líkt og Hess gerði. Líkamshlutana seldi hún meðal annars til fyrirtækja sem þjálfa skurðlækna. Þau eru sögð hafa verið grunlaus um að líkamshlutarnir væru illa fengnir.