Í samtali við Vísi segir Una María Magnúsdóttir, sem var stödd inni í vélinni þegar fréttastofa náði af henni tali, að flugmaðurinn hefði tjáð farþegum að því miður yrði ekki flogið í kvöld vegna þessa óhapps sem varð meðan vélin var í stæði.
„Við fengum tilkynningu um að það hefði ökutæki keyrt á vélina og hún væri of sködduð til að fljúga,“ segir Una.
Farþegar bíði frekari upplýsinga
Farþegar hafi verið beðnir að fara frá borði og safnast saman í töskusal flugstöðvarinnar þar sem þeim var tjáð að þeir fengju nýtt flug klukkan 9:30 í fyrramálið.
„Flugmaðurinn sagði að vélin væri það sködduð að þau þyrftu að fá einhverja skoðun til að mega fljúga með okkur. Helst hefðu þau viljað setja okkur í nýja vél en það væri engin laus. Þannig að það eru bara allir á hótel og reynt aftur á morgun,“ sagði Una.
Sjálf ætlaði hún þó ekki að verja nóttinni á hóteli, heldur hafði hún þegar hringt í kærastann sinn sem ætlaði að koma um hæl og sækja hana.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, staðfesti í samtali við fréttastofu að ekið hefði verið á vélina og málið væri í skoðun. Að öðru leyti gat hann ekki tjáð sig að svo stöddu.
Fréttin var uppfærð klukkan 20:56.