Þetta kemur fram í umsögn skipulagsfulltrúa um fyrirspurn Orkunnar, rekstraraðila 10-11, frá í desember um endurnýjun á skiltinu á austurgafli hússins.
Verslunin hefur um árabil verið með skilti á gaflinum, en í umsögninni kemur fram að á sínum tíma hafi ekki verið sótt um byggingarleyfi fyrir skiltinu. Nú hafi gamla skiltinu verið skipt úr fyrir mun stærra skilti, 32 fermetra að stærð, en um er að ræða svokallað led-skilti. Ekki hafi verið sótt um leyfi að þessu sinni heldur.
Fram kemur að kvörtun hafi borist vegna ljósmengunar frá skiltinu.
Í samþykktum skiltaleiðbeiningum borgarinnar segir að á umræddu svæði sé heimilt að vera með upplýst og óupplýst þjónustuskilti á byggingum eða mannvirkjum. Hvorki gamla né nýja skiltið standist þær kröfur sem umræddar leiðbeiningar kveða á um.

Fram kemur í leiðbeiningunum að skilti á þessu svæði borgarinnar skuli almennt samanstanda af stakstæðum bókstöfum. Stærð þeirra takmarkist við fjóra fermetra ef um stakstæða stafi sé að ræða (þar sem byggingin sé sýnileg á bak við skiltið) en einum fermetra ef um er að ræða veggspjald (þegar skiltið hylur vegginn á bak við sig).
Þá segir að skilti skulu falla vel að umhverfi sínu og taka „tillit til hlutfalla, yfirbragðs og staðaranda hvers svæðis fyrir sig“. Nýja skiltið sé um 32 fermetrar að stærð sem sé langt umfram leyfilega stærð í samþykktum leiðbeiningum auk þess sem að það hylji gafl-hliðina alveg.
„Það er því ekki hægt að segja að það taki tillit til umhverfisins eða falli vel að staðaranda. Því er tekið neikvætt í erindið,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa.