Dagný hefur leitt uppbyggingu Sky Lagoon síðustu ár en hefur ákveðið að hætta sem framkvæmdastjóri félagsins. Hún mun þó en þá sitja í stjórn félagsins.
„Þetta er búið að vera algjört draumaverkefni og ég er gríðarlega stolt af því sem við höfum áorkað. Planið var ávallt að fylgja verkefninu áfram sem framkvæmdastjóri í tvö ár eftir opnun, enda er ég nú ekki að fara langt. Sem stjórnarkona mun ég halda áfram að styðja þétt við bakið á Helgu sem tekur við daglegum rekstri,“ er haft eftir Dagnýju í tilkynningu.
Helga María starfaði áður sem framkvæmdastjóri FlyOver Iceland sem er í meirihlutaeigu sama félags og Sky Lagoon, Pursuit. Félagið er hluti af samstæðu Viad.
Helga segist vera full tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem fram undan eru.
„Að taka við keflinu af Dagnýju er mikill heiður og ótrúlega spennandi að fá að taka þátt í frekari vexti Sky Lagoon,“ er haft eftir Helgu.